Kennarar

Aladár Rácz píanókennari er fæddur í Rúmeníu árið 1967. Hann stundaði fyrst nám í píanóleik við Georges Enescu tónlistarskólann í Búkarest en síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólana í Búkarest og Búdapest. Einnig hefur Aladár tekið þátt í mörgum námskeiðum í Evrópu og sjálfur haldið masterclassnámskeið fyrir píanónemendur.. Hann hefur leikið á tónleikum víðsvegar um heiminn, leikið inn á geisladiska og unnið til verðlauna fyrir píanóleik í alþjóðakeppnum, m.a. á Spáni, Ítalíu og í Tékklandi. Síðan árið 1999 hefur Aladár starfað sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Húsavíkur, leikið með ýmsum kórum og söngvurum á Norður- og Austurlandi (s.s. Leikhúskórnum á Akureyri og Kammerkór Austurlands) og leikið einleik í Salnum í Kópavogi og með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í píanókonsert nr.1 eftir Ludwig van Beethoven.

Ágota Joó píanókennari er fædd í Ungverjalandi. Hún hóf pianónám 7 ára, gekk svo í Listamenntaskóla á pianóbraut. Hún  útskrifaðist frá Franz Liszt Tónlistarháskólanum í Szeged, sem pianókennari, tónfræðikennari og kórstjóri.
Hún flutti til Íslands árið 1988, kenndi þar við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Árið 1991 flutti hún til Njarðvíkur og kenndi þar á pianó við Tónlistarskóla Njarðvíkur. Hún var kórstjóri Kvennakórs Suðurnesja í nokkur ár og undirleikari Karlakórs Keflavíkur í mörg ár og lék m.a. inn á tvo diska með þeim.  Ágota stjórnar Kvennakór Reykjavíkur og Senjórítum Kvennakórs Reykjavíkur. Hún hefur kennt við Tónskólann Do Re Mi frá árinu 2006.

Ágústa María Jónsdóttir fiðlukennari stundaði nám í Barnamúsíkskólanum í Reykjavík. Hún lauk fiðlukennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1976.
1976-1977 stundaði hún nám við Hochscule fur Musik und darstellende Kunst í Vínarborg og síðan áfram við Tónlistarskólann í Reykjavík 1977-1978.
Kenndi við tónlistarskólana í Njarðvík og Keflavík 1977-1978. Hefur verið fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku Óperunni frá árinu 1979. Einnig hefur hún leikið með Nýju strengjasveitinni, Íslensku hljómsveitinni, Kammersveit Reykjavíkur og Langholtskirkju. Hún hefur leikið í Árshátíðarkvartettinum frá 1994.  Ágústa hefur kennt við Tónskólann Do Re Mi frá árinu 2003.

Birna Helgadóttir píanókennari útskrifaðist frá Tónlistarskólanum á Akureyri og hélt þaðan til Reykjavíkur þar sem hún útskrifaðist úr píanókennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 2000 undir leiðsögn Halldórs Haraldssonar. Þaðan fór Birna í framhaldsnám við Síbelíusarakademíuna í Helsinki og lauk BA prófi árið 2002 og MA námi í píanóleik 2004 með hæstu einkunn undir leiðsögn Tuija Hakkila. Birna hefur einnig lært á eldri hljóðfæri, sembal og fortepiano, og tekið þátt í fjölda meistaranámskeiða, hjá til að mynda Alexei Lubimov, Konstantin Bogino, Katarina Nummi, Eero Heinonen, Vassily Lobanov og Malcolm Bilson. Birna hefur hlotið fjölda styrkja þ.á.m. úr Minningarsjóði um Birgi Einarsson, Minningarsjóði Jean Pierre Jacquillat og námsstyrki frá finnska ríkinu. Birna hefur kennt við Tónskólann Do Re Mi frá árinu 2005.

Halldór Pétur Davíðsson harmonikukennari,  lærði harmonikuleik í Tónlistarskólanum í Grafarvogi undir handleiðslu Guðmundar Samúelssonar hvaðan hann tók framhaldsstig. Hann var meðlimur í Harmóníkukvintettinum í Reykjavík ásamt fjórum öðrum nemendum Guðmundar Samúelssonar og hefur komið fram við mörg tilefni og  m.a. unnið Nótuna 2012 (fyrir hönd Tónlistarskólans í Grafarvogi og Tónskóla Eddu Borgar.  Halldór Pétur hefur kennt fólki á öllum aldri á harmóniku í Tónlistarskólanum á Akranesi, Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla Hafnafjarðar. Hann hóf störf í Tónskólanum Do Re Mi haustið 2014.

Jón Guðmundsson tónfræðakennari lauk fullnaðarprófi í klassískum gítarleik frá Tónskóla Sigursveins árið 1993 og meistaraprófi í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Osló árið 2001. Hann hefur búið og starfað í Osló meira eða minna frá 1996, en er nú alfluttur til Íslands. Jón hefur samið mikið af tónlist fyrir gítar, bæði léttari nemendaverk og erfiðari einleiksstykki. Hann er virkur einleikari og heldur reglulega tónleika með nýrri frumsaminni tónlist. Jón hóf störf við Tónskólann Do Re Mi haustið 2019.

Kristín Cardew Guðmundsdóttir þverflautukennari hóf starf í Tónskólanum Do Re Mi haustið  2019.

Móeiður Anna Sigurðardóttir fiðlukennari hóf nám á fiðlu ung að aldri en á unglinsárunum skipti hún yfir á víólu og lærði þá hjá Helgu Þórarinsdóttur. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna og lauk hún MM í víóluleik frá Boston University hjá Georg Neikrug. Eftir það tók hún Post Graduate gráðu hjá Marjolein Dispa í Sweelinck Conservatorium í Amsterdam. Að námi loknu hóf hún störf sem víóluleikari hjá Opera North í Leeds í Englandi þar sem hún starfaði í 7 ár. Síðan hún flutti heim til Íslands hefur hún sinnt fiðlu og víólukennslu ásamt því að leika sem lausamanneskja með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hóf störf í Tónskólanum Do Re Mi haustið 2015.

Ólöf Þorvarðsdóttir fiðlukennari lauk prófi hjá Guðnýju Guðmundsdóttur frá Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1986 og hélt utan til framhaldsnáms. Fór hún í New England Conservatory of Music í Boston og lauk þar B.M. og M.M. í fiðluleik. Helsti kennari hennar þar var Masuko Ushioda og Michelle Auclair. Síðan lauk hún M. A. í listaþerapíu frá Lesley College í Cambridge í Mass. Hún vann við listaþerapíu (expressive arts therapy) í 5 ár, ásamt þvi að kenna á fiðlu, vera með tónlistarhópa fyrir 2ja til 5 ára börn og spila á ýmsum vettvangi. Haustið 1997 fluttist hún heim, vann við listaperapíu og kenndi á fiðlu. Árið 2000 var hún fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur kennt við Tónskólann Do Re Mi frá árinu 2007. Hún er meðlimur í strengjasveitinni Aþenu. Á sumrin er hún lífrænn garðyrkjubóndi og málar myndir í frístundum.  Ólöf hefur kennt við Tónskólann Do Re Mi frá árinu 2008.

Rúnar Þórisson gítarkennari og aðstoðarskólastjóri lauk einleikara- og kennaraprófi í gítarleik frá Tónskóla Sigursveins D Kristinssonar árið 1989. Að því búnu stundaði hann framhaldsnám í klassískum gítarleik í Svíþjóð undir leiðsögn Görans Söllschers, Per-Olof Johnsons prófessors og Gunnars Spjuths lektors við Tónlistaháskólann í Malmö. Jafnframt stundaði Rúnar nám við tónvísindadeild Lundarháskóla og lauk þaðan phil.kand. prófi árið 1993. Hann hefur sem klassískur gítarleikari og rafgítarleikari leikið á fjölda tónleika og tónlistarhátíða s.s. á Myrkum músíkdögum, Iceland Airwaves og Listahátíð í Reykjavík, Aldrei fór ég suður á Ísafirði, Nordischer Klang, norrænni menningarhátíð í Þýskalandi og með þverflautuleikaranum Pamelu De Sensi á tónlistarhátíð Ass. Accademia della Cultura á Suður-Ítalíu. Þá hefur hann leikið í útvarpi, sjónvarpi og inn á geisladiska m.a. með Kammersveit Reykjavíkur, gítardúettinum Duo de mano og sem rafgítarleikari með hljómsveitinni Grafik. Árið 2005 kom út sólódiskurinn Ósögð orð og ekkert meir, með lögum og textum eftir Rúnar. Hann hlaut starfsstyrk listamanna í Kópavogi árið 2007 og lauk meistaranámi í mennta- og menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst sama ár. Rúnar hefur starfað sem gítarkennari við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Tónlistarskóla Grafarvogs og við Tónskólann Do Re Mi síðan 1994.

Sophie Marie Schoonjans forskólakennari útskrifaðist frá Académie de Musique de Woluwe-Saint Pierre árið 1979 í Kodály kennslufræðum. Sama ár tók hún lokapróf í Conservatoire Royal de Musique de Bruxelles í tónfræðigreinum. Þá tók hún lokapróf í hörpuleik frá Conservatoire Royal de Musique de Bruxelles árið 1984 og árið eftir tók hún lokapróf í kammermúsik frá sama skóla.
Sophie Marie hefur kennt  tónfræðigreinar, blokkflautu og hörpuleik í Belgíu frá árinu 1977.
Hún flutti til Íslands árið 1992 og hefur starfað hér bæði sem tónlistarkennari og sem hörpuleikari. Hún hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífinu hér auk þess að hafa leikið í ýmsum Sinfóníuhljómsveitum hér og erlendis.
Sophie hóf kennslu í Tónskólanum Do Re Mi haustið 2007 sem forskólakennari, en kennir nú sem hörpu- og altflautukennari.

Tristan Cardew þverflautukennari lærði á flautu í París hjá Jean-loup Gregoire.  Hann útskrifaðist frá Conservatoire National Hector Berlioz hvar hann var nemandi Raymond Guiot.  Eftir það var Tristan hjá Pierre Yves Artaud og Alain Marion í einkatímum.  Hann starfaði í París sem flautuleikari ásamt því að vera meðlimur í Orchestre de Flutes de France.  Hann starfaði sem annar flautuleikari í Orchestre Regionale d’Ile de France og kenndi mikið og hélt masterklassa í Frakklandi og utan þess, ásamt því að kenna einkanemendum.  Árið 2000 flutti Tristan til Íslands og hefur starfað hér á landi í mörgum tónlistarskólum.  Tristan kenndi við Tónskólann Do Re Mi frá 2002-2008 og kom aftur til starfa haustið 2014.

Victoria Tarevskaia sellókennari hóf tónlistarnám ellefu ára gömul í “Musical Special School” “E. Koka” í Chisinau í Moldavíu. Hún nam síðan í Conservatiore N. Rimsky-Korsakov frá 1989-1991. Hún útskrifaðist með Mastersgráðu í sellóleik frá Tónlistarakademíu G. Musichescu, í Chisinau 1994. Eftir áheyrnarprufu var hún ráðin til Moldavian Philharmonic Symphony Orchestra 1992. Í starfi sínu þar tók hún þátt í um 500 tónleikum og tónleikaferðum til ýmissa landa Evrópu. Í maí 1993 lék hún í tríói sem sigraði keppni í kammmertónlist í borginn Rimnikul-Vilce í Rúmeníu. Hún var fulltrúi Moldavíu í “International Black Sea Chamberg Orchestra” 1995-1999. Hún hefur verið búsett á Íslandi frá árinu 1999 og starfað sem sellókennari og lausamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Hún hóf störf hjá Tónskólanum Do Re Mi árið 2000.

Vilberg Viggósson skólastjóri og píanókennari hóf nám í píanóleik 8 ára gamall hjá Ragnari H. Ragnar í Tónlistarskóla Ísafjarðar.  Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1980. Hann tók burtfararpróf í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Halldóri Haraldssyni 1982. Árið 1983 hélt hann til Kölnar og var einn vetur í einkatímum hjá Prof. Pavel Gililov.  Árið 1984 hóf Vilberg nám við  Sweelinck Conservatorium í Amsterdam hjá Willem Brons  og útskrifaðist þaðan árið 1989.
Vilberg kenndi  á píanó við Tónlistarskólann í Njarðvík árin  1989-1997. Hann stjórnaði Karlakór Keflavíkur á árunum 1994 –2004 og gerði tvo geisladiska með söng kórsins. Hann stofnaði Tónskólann Do Re Mi haustið 1994 ásamt Ágotu Joó og Ingu Ástu Hafstein og hefur verið skólastjóri tónskólans síðan.  Vilberg hefur útsett mikið fyrir hljómsveit skólans og nemendur, ásamt því að hafa útsett fyrir flestar gerðir kóra.
Vilberg gaf út bókina 12 jóladúettar fyrir píanó árið 2002 og  Sjö íslensk þjóðlög fjórhent fyrir píanó árið 2010.

 

Uppfært 30. ágúst 2018.

 

Comments are closed.